Sumir ferðamannanna höfðu farið „ansi víða“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allir þeir fimm sem greindust smitaðir af kórónuveirunni utan sóttkvíar á föstudag og laugardag eru ferðamenn sem framvísuðu vottorði um bólusetningu gegn Covid-19 eða fyrri sýkingu við komuna til landsins, að sögn sóttvarnalæknis. Sumir ferðamannanna höfðu farið nokkuð víða um landið og þarf „einhver fjöldi“ að fara í sóttkví vegna smitanna. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvetur fólk sem er með einkenni Covid-19 til þess að fara í sýnatöku, jafnvel þótt það sé bólusett enda verndar bólusetning fólk ekki fyllilega fyrir smiti. Þá hvetur hann fólk einnig til þess að hlaða niður rakningarappinu.

Ekki hefðbundin innanlandssmit

Ferðamennirnir komust að því að þeir væru smitaðir þegar þeir fóru í PCR-próf til þess að fá vottorð um að vera ósmitaðir áður en þeir héldu heim á leið. Þórólfur segir líklegt að fólkið hafi smitast af veirunni á leið sinni hingað til lands.

„Þetta sýnir bara hvað þessi veira er lúmsk. Þetta eru ekki þessi hefðbundnu innanlandssmit,“ segir Þórólfur. 

Spurður hvort þetta sýni að bólusetning eða fyrri Covid-19-sýking dugi ekki til segir Þórólfur:

„Við vitum náttúrlega að bólusetningin verndar fólk ekki 100% fyrir smiti en hún er sérstaklega góð til þess að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Fólk getur eftir sem áður tekið veiruna og greinst með hana. Rannsóknir hafa sýnt það.“

Gerir smitrakninguna erfiða

Sumir ferðamannanna sem greindust tengjast innbyrðis en ekki allir. Einhverjir þeirra höfðu, að sögn Þórólfs, farið „ansi víða“.

„Það gerir smitrakningu svolítið erfiða. Það er sérstaklega mikilvægt núna að hvetja alla til að hlaða niður rakningarappinu. Það gerir rakninguna mun auðveldari og setur örugglega færri í sóttkví en ella svo það er mjög mikilvægt að hvetja alla landsmenn til þess að hlaða niður rakningarappinu. Það er einhver fjöldi sem þarf að fara í sóttkví.“

Um helgina var öllum takmörkunum innanlands aflétt. Spurður hvort mögulega þurfi að stíga skref til baka í þeim efnum segir Þórólfur: 

„Við verðum að fylgjast með því eins og áður. Ég vil hvetja alla sem eru með einkenni, jafnvel þótt þeir séu bólusettir, til að fara í sýnatöku svo hægt sé að fá góða mynd af útbreiðslunni.“

20 manns bætast við í sóttkví

Í fréttatilkynningu frá almannavörnum vegna smitanna sem greindust á föstudag og laugardag segir að nokkur erill hafi verið um helgina hjá smitrakningarteymi almannavarna vegna ferðamanna sem greindust smitaðir á landamærunum og í skimun vegna vottorða á leið úr landi. 

Hluti af þessum hóp greinist í skimun á leið út úr landi og því teljast þau smit sem innanlandssmit. Í þeim tilfellum sem upp komu um helgina voru um 20 manns sem bættust við hópinn sem er í sóttkví á Íslandi,“ segir í tilkynningunni og jafnframt:

Rakningarteymið heldur áfram að rekja öll þau smit sem upp koma á landinu. Svo virðist sem ekki allir átti sig á að þrátt fyrir breytingarnar um helgina þá gilda sömu reglur og áður og því er ítrekað að þrátt fyrir að samkomutakmörkunum hafi verið aflétt innanlands þá gilda sömu reglur um sóttkví og einangrun ef einstaklingur er með COVID-19 smit.  Allir geta ennþá farið í sóttkví/einangrun, einnig bólusettir einstaklingar.  Verið er að breyta þeim reglum og verða þær kynntar þegar það gerist.

Næstkomandi fimmtudag verður hætt að skima þá sem framvísa vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu af völdum Covid-19. Einnig verður hætt að skima börn fyrir COVID-19 við komuna til landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert