Þurfum svigrúm til að mæta stórslysi

Erum langþreyttir og tilfinningin er sú að ekki sé hlustað …
Erum langþreyttir og tilfinningin er sú að ekki sé hlustað á sjónarmið okkar þegar varað er við hættulegu ástandi, segir Theódór Skúli. mbl.is/Sigurður Bogi

„Sjónarmið okkar lækna eru ákall úr grasrótinni,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir á Landspítalanum. Hann er í forsvari þeirra 985 lækna sem í síðustu viku afhentu fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins undirskriftir sínar, þar sem skorað er „á stjórnvöld að axla ábyrgð á stöðunni í heilbrigðiskerfinu“, eins og komist var að orði.

Læknar telja mikilvægt að gefin fyrirheit um aukið fjármagn til alls heilbrigðiskerfisins verði efnd. Mikilvægt sé að koma með varanlegar lausnir í öldrunarþjónustu, samanber að á hverjum tíma dvelst á Landspítalanum fólk sem lokið hefur læknismeðferð, en ekki er hægt að útskrifa því ekki er í önnur hús að venda. Í raun stífli þetta allt gangverk spítalans.

Læknar til meiri áhrifa

„Þó fjárveitingar til Landspítalans séu auknar sjáum við þess ekki stað. Því teljum við að hugarfarsbreytingu þurfi um rekstur spítalans. Læknar eru leiðtogar með hugmyndir og mikilvægt er að virkja þá til meiri áhrifa. Læknar eru langþreyttir og tilfinningin sú að ekki sé hlustað á sjónarmið okkar þegar varað er við hættulegu ástandi,“ segir Theódór Skúli og áfram:

„Ýmis mál eru í ólestri, svo sem leghálsskimanir og rannsóknir á þeim sem voru fluttar til Danmerkur, með slæmum afleiðingum. Því miður virðist stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum vera sú að gefnar eru út tilskipanir á efstu stöðum; skilaboð sem virðist eiga að fylgja umyrðalaust. Sjónarmið lækna hafa ekki skilað sér til stjórnvalda. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.“

Erfið staða á bráðadeild Landspítala, svo sem mannekla og langur biðtími sjúklinga eftir þjónustu, hefur verið til umfjöllunar að undanförnu. Í þeim efnum bendir Theódór á, að í heilbrigðiskerfinu haldist allt í hendur. Engin heildstæð framtíðarstefna sé í öldrunarmálum, þrátt fyrir mikla fjölgun eldra fólks sem alltaf þarf margvíslega þjónustu heilsugæslu og sjúkrahúsa.

„Eldra fólk á rétt á sjúkraþjónustu en ekki hefur verið horft til þess með fjölgun öldrunarrýma. Sú staðreynd er rót vandans. Nærri lætur að hvert rúm á Landspítalanum sé fullnýtt alla daga og allt umfram hámarksnýtingu skapar hættu. Þegar sjúklingarnir stöðvast á bráðamóttöku stíflast kerfið og þá er Landspítalinn ekki starfhæfur. Meðferð á vel búnum sjúkrahúsum í dag tekur æ skemmri tíma og reynt er að útskrifa alla svo fljótt sem verða má. Veruleikinn er samt sá, að eftir aðgerðir á sjúkrahúsinu kemst fólk ekki í þá umönnun sem rétt er. Þegar nýtt hjúkrunarheimili Hrafnistu í Fossvoginum í Reykjavík kom, batnaði staðan um stundarsakir, en nú erum við aftur komin á byrjunarreit.“

Lesa má þessa umfjöllun í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert