Skógræktin hefur hafið skógrækt á Ormsstöðum í Breiðdal með stuðningi One Tree Planted. Þar verður plantað um 180.000 trjáplöntum í um 140 hektara á næstu tveimur árum.
„Þetta er ekki mjög mikið flatarmál, en það sem er sérstakt er að við ætlum að ljúka þessu á tveimur árum,“ sagði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. Tegundirnar sem verður plantað eru sitkagreni, stafafura, alaskaösp og birki.
Alþjóðasamtökin One Tree Planted (onetreeplanted.org) fjármagna verkefnið. Þröstur sagði að tilgangur þeirra sé að auka skógrækt með gróðursetningu trjáa. „Þau fá fólk og fyrirtæki til að styðja sig og styrkja skógrækt víða um heim. Þetta er fyrsta verkefni þeirra hér á landi. Við vinnum annað verkefni með þeim á næsta ári en það er að planta skógi í Spákonufell við Skagaströnd. Þar ætlum við að klára sambærilegt svæði og þetta á skömmum tíma og erum í samstarfi við sveitarfélagið Skagaströnd og svo One Tree Planted um fjármögnun,“ sagði Þröstur í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag.