Andlát: Sigríður Jóhannsdóttir

Sigríður Jóhannsdóttir.
Sigríður Jóhannsdóttir.

Sigríður Jóhannsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands, lést 23. júní sl. á Landspítala í Fossvogi eftir stutt veikindi, 91 árs að aldri.

Sirgíður fæddist á Akureyri 11. nóvember 1929. Hún var dóttir hjónanna Jóhanns Friðgeirs Steinssonar trésmiðs og Sigríðar Guðbjargar Jóhannsdóttur, húsmóður og klæðskera.

Sigríður lauk prófi frá Gagnfæðaskóla Akureyrar árið 1946. Eftir störf á skrifstofu KEA innritaðist hún í Hjúkrunarskóla Íslands árið 1951 og lauk þaðan prófi í mars 1954. Hún starfaði við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til ársloka 1954 en hélt þá til Bandaríkjanna og lauk námi í gjörgæsluhjúkrun á Presbyterian Hospital í Chicago árið 1956. Sigríður starfaði á Northwestern Hospital í Minneapolis þangað til hún flutti aftur heim til Íslands. Eftir heimkomuna var Sigríður heimavinnandi á meðan börnin voru ung en vann aukavaktir á Landakoti og Borgarspítalanum eftir ástæðum. Árið 1973 fór hún í fulla vinnu utan heimilis.

Sigríður lauk námi í uppeldis- og kennslufræðum við Kennaraháskóla Íslands árið 1976 og var við nám í Nordiska Hälsovårdshögskolan í sjúkrahússtjórnun og umhverfisvernd á árunum 1979-81.

Sigríður var kennari við Nýja hjúkrunarskólann 1975-77, hjúkrunarforstjóri St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði 1977-79. Árið 1979 réðst hún sem kennari við Hjúkrunarskóla Íslands, varð yfirkennari 1982 og skólastjóri 1983-1987. Þá var skólinn lagður niður og allt hjúkrunarnám flutt á háskólastig. Sigríður var í broddi fylkingar um að sameina allt hjúkrunarnám á Íslandi á háskólastigi. Á árunum 1988 til 1993 var hún hjúkrunarforstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Keflavík og að því loknu fór hún á eftirlaun.

Eiginmaður Sigríðar var Valtýr Bjarnason, yfirlæknir svæfingadeildar Landspítalans, hann lést 1983. Börn þeirra eru: Bjarni, Jóhann, Valtýr og Sigríður Þórdís. Sigríður átti 13 barnabörn og 10 barnabarnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert