Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra innti Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, eftir afsökunarbeiðni vegna dagbókarfærslu lögreglu sem hratt af stað Ásmundarsalarmálinu svokallaða.
Áslaug hringdi tvívegis í Höllu Bergþóru á aðfangadag jóla í fyrra, daginn eftir að upp komst að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og flokksbróðir Áslaugar, hafði verið í gleðskap í Ásmundarsal þar sem sóttvarnarlög voru virt að vettugi.
RÚV hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum, en Halla Bergþóra á að hafa lýst þessum samskiptum hennar og dómsmálaráðherra á lokuðum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í byrjun mars á þessu ári.
Það sem Áslaug vildi að Halla Bergþóra bæðist afsökunar á, var að í dagbókarfærslu lögreglunnar á aðfangadagsmorgun, sem send er fjölmiðlum, kom fram að „háttvirtur ráðherra“ hafi verið í Ásmundarsal. Lögregla var enda kölluð að Ásmundarsal vegna gruns um að þar væri verið að brjóta sóttvarnarlög.
Hvorki Áslaug né Halla Bergþóra hafa viljað greina opinberlega frá efni þeirra tveggja símtala sem fóru þeirra á milli á aðfangadag. Áslaug hefur þó sagst ekki hafa verið að hafa afskipti af málinu.
Hvorki Áslaug né Halla Bergþóra svöruðu símtölum mbl.is.