Banaslys, sem varð í ágúst á síðasta ári við Stigá í Öræfum, þegar ökumaður bifhjóls missti stjórn á hjólinu, er meðal annars rakið til þess að hjólinu var ekið of hratt og einnig var öryggisbúnaður ökumannsins ófullnægjandi.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa birti skýrslu um slysið í gær. Þar kemur fram, að skömmu áður en ökumaður á bifhjóli kom að brúnni yfir Stigá byrjaði hjólið að skjálfa með þeim afleiðingum að ökumaðurinn missti stjórn á því, féll og rann eftir veginum. Hann rakst utan í bifreið sem kom úr gagnstæðri átt og kastaðist út fyrir veg. Ökumaðurinn lést af völdum áverka sem hann hlaut í slysinu.
Stuttu fyrir slysið hafði ökumaður á vesturleið mætt bifhjólinu vestan við brúna yfir Stigá. Vitnið sá að hjólið tók að rása, fyrst framhjólið og stýrið, þar til allt hjólið fór að sveiflast til. Hjólið stefndi þá yfir á rangan vegarhelming og þurfti vitnið að aka eins og hægt var út í vegkant til að koma í veg fyrir að hjólið lenti á bifreiðinni.