Borgin hefur fullan hug á að reisa þjóðarleikvang

Hugmynd arkitekta að nýjum þjóðarleikvangi.
Hugmynd arkitekta að nýjum þjóðarleikvangi. Teikning/Zaha Hadid arkitektar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafnar því að framhaldið á undirbúningi nýs þjóðarleikvangs strandi á Reykjavíkurborg. Tilefnið er viðtal við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í Morgunblaðinu síðasta miðvikudag en hann sagði óvissu um framlag Reykjavíkurborgar til uppbyggingar nýs leikvangs. Dagur kveðst ekki taka undir þessa greiningu á stöðunni.

„Nei, ég myndi ekki taka undir þá framsetningu á stöðu málsins. Borgin vinnur með ríkinu að undirbúningi þriggja þjóðarleikvanga í Laugardal: Þjóðarleikvangi í knattspyrnu, þjóðarleikvangi í innanhúsíþróttum, þ.e. handknattleik og körfuknattleik, og þjóðarleikvangi í frjálsum íþróttum. Þeir eiga það allir sameiginlegt að vera ófjármagnaðir.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg markaði sér hins vegar skýra stefnu í málefnum þeirra í tengslum við forgangsröðun fjárfestinga í íþróttamálum síðastliðið haust og lýsti sig tilbúna til að koma að fjármögnun þessara þjóðarleikvanga að því marki sem nýtist börnum og unglingum til æfinga og keppni, en barna- og unglingastarf er lykilforgangur í íþróttamálum borgarinnar. Íþróttafélögin í Reykjavík og Íþróttabandalag Reykjavíkur hafa talað fyrir sömu stefnu,“ segir Dagur. Borgin muni þó ekki taka alla áhættuna í málinu.

„Borgarráð gerði samþykkt þar sem hugmyndum um þjóðarleikvang í knattspyrnu var fagnað og lýsti sig tilbúið að leggja núverandi völl og mannvirki inn í félag sem gera myndi hann að veruleika. Jafnframt væri borgin tilbúin að leggja jafngildi núverandi fjárveitinga borgarsjóðs til Laugardalsvallar til verkefnisins. Borgin er hins vegar ekki tilbúin að bera ábyrgð á áhættu í sjálfri framkvæmdinni eða rekstri vallarins. Þar þyrfti ríkið eða KSÍ eða aðrir aðilar að koma til.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert