Breytt hegðun eldgossins í Geldingadölum kemur jarðvísindamönnum ekki óvart, þótt fylgst verði sérstaklega vel með gígunum á næstunni. Ekkert bendir til þess að gosið sé að hætta, þó að sem fyrr segi jarðvísindamenn að erfitt sé að spá um slíkt.
Sérstaklega verður fylgst með því ef gosvirknin minnkar töluvert hvort kvika sé mögulega að brjóta sér leið upp á yfirborðið annars staðar en á þeim sjö stöðum sem hún gerir nú.
Þetta segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, við mbl.is.
„Nei, í raun og veru ekki,“ segir Björn spurður hvort jarðvísindamenn hafi einhverjar skýringar á breyttri hegðun gossins. Síðdegis í gær virtist sem gosvirkni hefði dregist töluvert saman, eins og sagt var frá á facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands í gær.
„Við höfum náttúrlega séð það í þessa um það bil 100 daga sem gosið hefur staðið að það hefur sýnt breytingar. Þetta eru náttúrlega bara óróamælingar sem gefa til kynna hvað er að gerast þarna í efstu lögum gígsins. Hann hefur bara breyst með tíð og tíma, kvikustrókavirkni, hraunflæði og þetta hefur farið svona fram og til baka.“
Þannig að þetta er ekki eitthvað sem kemur ykkur jarðvísindamönnum á óvart eða hvað?
„Nei, nei, alls ekki.“
Björn segir að áætlanir almannavarna hverfist um aukna eftirfylgni með allri breyttri hegðun gossins og þá hvort búast megi við að það fari að streyma fram á nýjum stöðum úr nýjum gígum.
„Þannig að planið er að ef það hættir að gjósa úr þessum gíg þá þarf að fylgjast með hvort kvikan leiði í einhverjar aðrar áttir.“