Byssumaðurinn mættur til markvissra aðgerða

Þráinn hringdi í lögreglunna meðan hann skýldi sér á bak …
Þráinn hringdi í lögreglunna meðan hann skýldi sér á bak við bíl. Eggert Jóhannesson

Maðurinn sem var handtekinn við Sæbraut um hádegisbil í dag, vopnaður hlaðinni skammbyssu, hafði fyrst komið við í kaffistofu Samhjálpar. Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar áfangaheimilis fyrir fanga, staðfesti þetta í samtali við blaðamann.

Þráinn kemur endrum og eins við á kaffistofu Samhjálpar og var því alger tilviljun að hann var á svæðinu í dag. Hann sagðist stundum kíkja við til þess að taka stöðuna á mönnum sem dvelja á Vernd og eru í starfsendurhæfingu þarna, sjá hvernig þeim gengur og hvernig þeim líkar. 

„Eins og í bíómyndum“

Hann sagði blaðamanni frá því hvernig hann stóð í portinu í dag á tali við annan mann þegar einstaklingur gekk hröðum, einbeittum skrefum í átt að þeim með skammbyssu. „Þetta var eins og maður sér í bíómyndum,“ sagði Þráinn. 

Maðurinn sem Þráinn var á tali við kallaði upp: „Hann er með byssu, hann er með byssu!“ og kom þá fát á hinn vopnaða einstakling. Nægilegt til að Þráinn og maðurinn komust á bak við bíl sem var lagt nálægt. 

Þráinn sagði að þetta hefði allt gerst á ógnarhraða og ótal hugsanir gert vart við sig. Hann minntist þess meðal annars að maður hefði nýlega verið skotinn fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. 

Beið bara eftir að fá skot í bakið

„Þetta var virkilega ógnandi staða að vera í, hann hefði getað skotið okkur báða sisvona,“ sagði Þráinn. Hann benti einnig á að ef þú hleypur í burtu frá svona manni bíðir þú bara eftir að fá skot í bakið. Meðan þeir voru á bak við bílinn náði Þráinn að hringja í lögregluna.

Maðurinn hörfaði út úr portinu við þetta, en kom svo hlaupandi aftur skömmu seinna, enn með byssuna á lofti, að sögn Þráins. Þá færðu þeir sig inn og lokuðu með því að færa stóran kæli fyrir hurðina. „Á tímapunkti erum við bara í gíslingu þarna, vitum ekkert hvar hann er,“ sagði Þráinn, en að lokum kom lögreglan og tilkynnti að búið væri að ná manninum.

Kominn markvisst til einhverra aðgerða

Þráinn er sannfærður um að einstaklingurinn hafi verið kominn á staðinn með þetta vopn, markvisst til einhverra aðgerða. Hann kveðst þó ekki vita hver maðurinn var eða hvers vegna hann var þarna eða hver var skotmarkið. 

Þráinn Bj. Farestveit framkvæmdastjóri Verndar var ógnað með skammbyssu í …
Þráinn Bj. Farestveit framkvæmdastjóri Verndar var ógnað með skammbyssu í portinu hjá kaffistofu Samhjálp í dag.

Þráinn er í starfi þar sem hann getur þurft að taka erfiðar ákvarðanir á kostnað einstaklinga með langan afbrotaferil að baki. Hann útilokar því ekki að hann hafi sjálfur verið skotmarkið en ekki liggja fyrir neinar frekari vísbendingar til þess. 

„Menn ganga stundum með vopn eins og hnífa en þetta er öðruvísi fyrir okkur Íslendinga, þó að einhver til dæmis í Amsterdam segði þetta daglegt brauð.“

Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni sem stendur og mun hún því ekki tjá sig frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert