Fyrningum óskilorðsbundinna dóma hefur fjölgað umtalsvert á síðustu mánuðum. Þær eru 21 talsins það sem af er ári en voru 22 allt árið í fyrra. Árið 2016 voru þær sextán sem var töluverð fækkun frá árunum áður.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir fjölgunina eiga sér eðlilegar skýringar. „Síðasta árið höfum við þurft að starfa í samræmi við sóttvarnareglur í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
Í neyðarstigi almannavarna felst að einstaklingar eru ekki boðaðir inn í fangelsin nema í algjörum neyðartilvikum. Stóran hluta síðasta árs voru fangelsin rekin á litlum afköstum og fyrir vikið sitja eftir eldri dómar. Þeir dómar eru vægir og varða einstaklinga sem hafa hagað sér vel eftir að dómur var kveðinn upp,“ segir Páll í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.