Hjólinu sem veitti Aldísi frelsi stolið

Systurnar Brynhildur og Aldís.
Systurnar Brynhildur og Aldís.

Aldís Ósk Björnsdóttir lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu um helgina að rafhlaupahjólinu hennar var stolið fyrir utan Hagkaup í Spönginni. Aldís er ekki með bílpróf og notar ferðaþjónustu fatlaðra til þess að komast á milli staða. Hlaupahjólið veitti henni frelsi, með því gat hún komist á milli staða án þess að vera upp á aðra komin og því varð hún mjög leið þegar hjólið hvarf. 

„Þetta er eina tækið sem hún getur keyrt um á ef hún vill fara eitthvað aðeins lengra án þess að hringja í fjölskylduna eða ferðaþjónustuna. Svo finnst henni þetta líka skemmtilegt,“ segir Brynhildur Diego Kolbeinsdóttir, systir Aldísar. 

„Hún var rosaleið yfir þessu og hissa þegar hún kom út og hjólið hennar var ekki þarna.“

Hér má sjá samskonar hlaupahjól og rænt var af Aldísi. …
Hér má sjá samskonar hlaupahjól og rænt var af Aldísi. Nú er safnað fyrir nýju hjóli þó fjölskyldan voni að gamla hjólið komi í leitirnar.

Áhrifavaldurinn Edda Falak hrinti af stað söfnun fyrir Aldísi svo hún geti keypt sér nýtt hjól ef hið gamla kemur ekki í leitirnar. Nýtt hjól kostar 80.000 krónur og hefur þegar um þriðjungur af upphæðinni safnast.

„Við erum búin að fá rosalega fallegar undirtektir og skilaboð. Það er líka gaman að sjá hversu gott fólk er,“ segir Brynhildur.

Þjófar hugsi ekki endilega út í eigandann

Málið hefur verið kært til lögreglu en Brynhildur segir að ef sá sem tók hjólið komi hjólinu til Aldísar eða fjölskyldu hennar séu þau tilbúin í að loka málinu þannig og gera ekki meira úr því. 

„Ég held að fólk taki stundum hlutina án þess að átta sig á því að það er manneskja á bak við þá. Ég held að ofsalega margir myndu sjá eftir svona löguðu ef þeir áttuðu sig á því að sá sem á hlutinn hafði safnað sér fyrir honum og þurfti á honum að halda,“ segir Brynhildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert