Áætlað er að 7.600 störf hafi verið laus á öðrum ársfjórðungi 2021 og á sama tíma voru um 183.300 störf mönnuð á íslenskum vinnumarkaði og hlutfall lausra starfa því 4%.
Þetta kemur fram í starfaskráningu Hagstofu Íslands.
Samanburður við árið í fyrra sýnir að 5.100 fleiri störf voru laus á öðrum ársfjórðungi 2021 en á sama tímabili 2020. Mönnuðum störfum fækkaði um 6.700 á milli ára og hlutfall lausra starfa hækkaði um 2,7%.
Borið saman við fyrsta ársfjórðung 2021 fjölgaði lausum störfum um 4.000 á milli ársfjórðunga og jókst fjöldi mannaðra starfa um 700. Hlutfall lausra starfa hækkaði um 2,1% á milli ársfjórðunga.
Niðurstöður starfaskráningar sýna að hæsta hlutfall lausra starfa á öðrum ársfjórðungi 2021 var í ferðaþjónustu og tengdum greinum eða 11,8%. Áætlað er að 17.900 hafi verið starfandi í ferðaþjónustu og laus störf verið 2.400.