Andlát: Ólafur B. Thors

Ólafur B. Thors.
Ólafur B. Thors.

Ólafur B. Thors, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjóvár-Almennra, lést á mánudaginn á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 83 ára að aldri.

Ólafur fæddist í Reykjavík 31. desember 1937, yngstur þriggja systkina. Foreldrar hans voru Elísabet Ólafsdóttir Thors, f.4.7. 1910, d.16.12. 1999, og Hilmar Thors, f. 7.7. 1908, d. 10.7. 1939.

Ólafur lauk stúdentsprófi frá MR 1957 og embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1963. Hann öðlaðist hdl.-réttindi 1964 og stundaði trygginganám í Lundúnum árin 1964-65.

Ólafur var deildarstjóri hjá Almennum tryggingum hf. 1963-70 og varð svo aðstoðarforstjóri þar á árunum 1970-76 og síðar forstjóri frá 1976-89. Hann var einnig forstjóri Almennra líftrygginga hf. frá 1981-91 og framkvæmdastjóri Sjóvár-Almennra trygginga hf. 1989-2002.

Ólafur var formaður Vöku 1961-62, formaður Heimdallar 1966-68 og sat í stjórn SUS 1967-69. Þá var Ólafur í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1966-70 og 1973-77 í flokksráði Sjálfstæðisflokksins. Hann sat í miðstjórn flokksins 1971-73. Ólafur var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 1970-82, sat í borgarráði 1970-74 og var forseti borgarstjórnar 1974-78.

Ólafur kom víða við á starfsferli sínum og sat í mörgum stjórnum, m.a. í stjórn Landsvirkjunar 1977-83 og í bankaráði Seðlabanka Íslands 1982-98. Þar af var hann formaður bankaráðs 1986-90.

Ólafur hafði mikinn áhuga á tónlist, bæði klassískri og djasstónlist, og sat hann í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1976-78 og var stjórnarformaður 1986-90, í stjórn Sinfóníuhljómsveitar æskunnar 1986-93, í úthlutunarnefnd listamannalauna 1974-78, í stjórn Ísafoldarprentsmiðju 1969-82, í stjórn Samtaka um byggingu tónlistarhúss 1993-99, var formaður samstarfsnefndar ríkis og borgar um byggingu Hörpu frá 1999 og formaður Austurhafnar, rekstrarfélags um Hörpu, til 2005. Ólafur var aðalræðismaður Japans á Íslandi frá 1982-2002.

Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Jóhanna Jórunn Thors, f. 8.9. 1937, húsfreyja. Sonur þeirra er Hilmar, f. 3.12. 1965, framkvæmdastjóri, en kona hans er Hlíf Thors Arnlaugsdóttir, verkefnastjóri við Hugvísindasvið HÍ. Synir þeirra eru Ólafur Baldvin Thors, BS í hagfræði, og Benedikt Thor Thors stúdent.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert