Sýslumaðurinn á Suðurnesjum setti í gær lögbann við því að þyrlufyrirtækið Norðurflug haldi áfram að lenda þyrlum sínum í landi Hrauns, sem eldgosið á Reykjanesskaga er á, án samþykkis landeigenda.
Fréttablaðið greinir frá þessu og kemur þar fram að Norðurflug hafi boðið upp á þyrluferðir að gosinu frá því í byrjun mars.
Í fréttinni er rætt við lögmann landeigenda sem segir að lögbannið hafi verið lagt á vegna þess að ekki megi lenda flugförum inni á eignarlandi nema með samþykki landeigenda.
„Það er enginn að amast við frjálsri för almennings sem nýtur verndar í náttúruverndarlögum. Þetta mál lýtur eingöngu að þyrlunum. Ef menn eru með þyrlu geta þeir áfram flogið yfir en til að lenda þarf samþykki landeigenda,“ segir lögmaðurinn, Óskar Sigurðsson, í samtali við Fréttablaðið.
Nú hafa landeigendur viku til þess að höfða mál fyrir héraðsdómi til staðfestingar lögbanninu.