Alls hafa sex nýliðar verið ráðnir í hlutastarf hjá slökkviliði Fjallabyggðar. Þar eru nú 34 liðsmenn auk slökkviliðsstjóra og varaslökkviliðsstjóra.
Jóhann K. Jóhannsson slökkviliðsstjóri segir ráðningarnar vera nauðsynlegar til nýliðunar. „Það þurfti að bregðast við hækkandi meðalaldri í liðinu. Á einhverjum tímapunkti kúplast þeir eldri frá, en við viljum ekki missa þá strax því þeir hafa þekkingu og reynslu og það þarf að vera búið að þjálfa nýjan mannskap. Það er bæði verið að hugsa fram í tímann og tryggja að slökkviliðið sé starfhæft,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag.
Slökkvilið Fjallabyggðar er með einingar á Siglufirði og á Ólafsfirði og voru þrír ráðnir á hvorn stað. Alls sóttu fjórtán um störfin, þar af tvær konur. Önnur þeirra hlaut ráðningu og segist Jóhann geta slegið því föstu að um sé að ræða fyrstu konuna sem ráðin er í slökkviliðið.
Jóhann segir að á næstu þremur til fjórum árum þurfi reglulega að ráða inn til að snúa við þróuninni í hækkandi meðalaldri. Hann vonast til að geta ráðið fleiri strax á næsta ári og geta þá fjölgað konum.