Gestum á tjaldsvæðinu við Vaglaskóg brá í brún í gær þegar Fnjóská flæddi yfir bakka sína og yfir eitt af fimm svæðum tjaldsvæðisins. Mikil hlýindi hafa verið á svæðinu og er snjóbráðnun líklegasta skýringin á vatnavöxtunum.
Guðrún Jónsdóttir hefur verið gestur á tjaldsvæðinu síðustu daga með fellihýsi en sá sig tilneydda til að færa sig um set um miðja síðustu nótt vegna flóðanna.
„Við færðum okkur tvisvar. Þetta byrjaði sem smá pollur á grasinu en varð svo að vatni, þetta gerðist frekar hratt. Þá færðum við okkur aðeins ofar á tjaldsvæðið. Þar töldum við okkur nokkuð örugg en svo sáum við vatnið vaxa þar líka. Klukkan hálftvö ákváðum við því að færa okkur aftur,“ segir hún. Hún segir að flætt hafi inn á tjaldsvæðið um helgina einnig en það hafi ekki verið jafn mikið og í nótt.
Tjaldstæðavörður Vaglaskógar segir að um sé að ræða svæðið Hróarsstaðanes neðra sem stendur við ána. Flóð eru að sögn hans ekki reglulegur atburður á tjaldsvæðinu.
„Ég er búinn að vera hérna í fimm ár og það hefur ekki flætt inn á tjaldsvæðið á þeim tíma. En ég hef heyrt sögur af því að árið 1995 hafi komið svo mikið flóð að það fór ein brúin sem var yfir ána, en síðan þá held ég að það hafi ekki verið svona mikið,“ segir hann.
Þá segir hann að það muni jafnvel flæða enn meira í kvöld og í nótt en verið hefur. „Það er líklegt að það verði jafnvel ennþá meira, því það er ennþá gott veður og á að vera einhver vindur í dag,“ segir hann.
„Við erum búin að vera að ræða hvort við ættum ekki að loka allavega þeim hluta tjaldsvæðisins sem liggur að ánni. Þetta er frekar stórt svæði þannig að það væri kannski hægt að halda helmingnum opnum og loka við ána, en við ætlum að meta það betur þegar líður á daginn.“
Nokkuð mikið hefur verið að gera á tjaldsvæðinu undanfarið og segir hann að um síðustu helgi hafi það verið nánast fullt, að minnsta kosti hvað varðar tengingar í rafmagn.
Uppfært kl. 16:15
Ákveðið hefur verið að loka Hróðarstaðanesi neðra í bili en hin fjögur svæði tjaldsvæðisins verða áfram opin. Þau liggja hærra og er ekki hætta á að flæði inn á þau.