„Kraftaverk að enginn hafi verið undir“

Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Níu hús voru …
Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Níu hús voru rýmd. Ljósmynd/Lögreglan

„Við vorum komin með tæki á staðinn, vinnuflokk og búin að láta hanna framkvæmdina en þá bara gerist þetta. Það er bara kraftaverk að enginn hafi orðið undir þessu vegna þess að vinnumennirnir voru bara í kaffi þegar skriðan fer af stað,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is.  

Hann segir að vitað hafi verið af mikilli bleytu á svæðinu en ákveðið hafi verið að grafa ekki fyrr en svæðið yrði þurrara.

Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á Norðurland vestra.
Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á Norðurland vestra. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Sérfræðingar töldu að ef hreyft yrði við jarðveginum blautum færi hann sennilega af stað. Nú hefur verið þurrkur í nokkurn tíma og því vorum við komin með tæki á svæðið í gær til að byrja að drena,“ segir Stefán.  

Þrjár skriður á sama tíma 

Aurskriða féll einnig í Tindastóli í nótt eins og komið hefur fram í umfjöllun mbl.is. Hann segir að gríðarlegt magn aurs hafi komið niður í Tindastól. „Hvað hefur gerst þar erum við ekki klár á. Þar fer í sundur rafmagnsstrengur, háspennustrengur og ljósleiðari og eitthvert smávægilegt tjón á mannvirkjum. Byggingarnar sem þar eru virðast hafa sloppið,“ segir Stefán. 

Hann segir svæðið mjög illa farið en minni hættu á ferðum þar sem enginn býr þar. Svæðinu hefur verið lokað en almannavarnir og lögreglan einbeita sér að Varmahlíð sem stendur þar sem hættan er í byggð.

Svæðið sem varð fyrir skriðunni í Tindastól.
Svæðið sem varð fyrir skriðunni í Tindastól. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að þriðja skriðan hafi síðan fallið í Óslandshlíð á Tröllaskaga í gær. Hún hafi þó verið minni og við læk. 

Nú stendur yfir vinna sérfræðinga frá Veðurstofu Íslands og frá sveitarfélaginu við að meta yfirvofandi og áframhaldandi skriðuhættu þar sem aurskriða hefur þegar fallið í Varmahlíð. Stefán segir að til varúðar hafi rýmingu verið haldið óbreyttri og að staðan verði endurmetin á fundi almannavarna klukkan 17.30 síðdegis í dag. 

 „Verkefni dagsins er að reyna að átta okkur á því hvar þessi straumur liggur, reyna að grafa okkur niður á hann þveran og drena hann fram hjá byggðinni.“

Frá Tindastól í dag.
Frá Tindastól í dag. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert