Segja engum krabbameinssýnum hent

Óskar Reykdalsson er forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Óskar Reykdalsson er forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ljósmynd/Lögreglan

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu segist ekki henda sýnum sem berast Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana. Í gær sagðist kona hafa lent í því að sýni úr leghálsi hennar hafi verið fargað þrátt fyr­ir að hún hafi greinst með frumu­breyt­ing­ar í leg­hálsi á síðasta ári. 

Heilsugæslan segir þetta ekki eiga við rök að styðjast. 

„Skimun er ákveðið kerfi og skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis taka mið af vísindalegri þekkingu og gagnreyndri læknisfærði í þeim tilgangi að hámarka gagnsemi og lágmarka skaðsemi skimunar. Sé vikið frá skimunarleiðbeiningum er hætt á að gagnsemin minnki og eða skaðsemin aukist,“ segir í tilkynningu á vef heilsugæslunnar.

Ofskimun geti valdið skaða

Þar er áréttað að skimun fyrir krabbameini í leghálsi sé í boði fyrir konur án einkenna. Konum með einkenni á að vísa í greiningarferli þar sem leitað er að orsök einkenna. Í tilkynningunni er tekið fram að ofskimun sé það þegar sýni er tekið áður en skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis segja til um það.

„Rannsóknir hafa sýnt að ofskimun getur valdið konum líkamlegum skaða, andlegum óþægindum og þeim og samfélaginu óþarfa útgjöldum,“ segir á vef heilsugæslunnar og jafnframt:

„Samhæfingarstöð krabbameinsskimana ber ábyrgð á því að skimunarleiðbeiningum landlæknis sé fylgt á landsvísu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert