Byssumaðurinn í 4 vikna gæsluvarðhald

Málið er í rannsókn.
Málið er í rannsókn. Eggert Jóhannesson

Maðurinn sem var handtekinn af sérsveit lögreglu á þriðjudaginn eftir að hafa ógnað fólki á kaffistofu Samhjálpar með hlaðinni skammbyssu hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Þetta staðfestir héraðssaksóknari en málið er nú í rannsókn.

Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu en hann var handtekinn fyrir hnífsárás á veitingastaðnum Sushi Social í aprílmánuði. Saksóknari staðfestir þetta einnig.

Myndband náðist af árásinni þar sem sjá mátti manninn stinga fórnarlamb sitt af ákefð en tókst þó aðeins að hæfa upphandlegg þess. Hann var svo látinn laus eftir nokkurra daga gæsluvarðhald enda þóttu rannsóknarhagsmunir ekki krefjast frekari frelsisskerðingar. 

Nú er maðurinn í haldi vegna gruns um að hafa ógnað mönnum með skammbyssu á kaffistofu Samhjálpar sem seinna kom í ljós að var hlaðin. Hann var svo handtekinn á Sæbraut en að sögn saksóknara veitti hann ekki mikla mótspyrnu. 

Málið er rannsakað sem einstakt mál og ekki er neitt sem bendir til að það tengist öðru, að svo stöddu. Hinsvegar er rannsókn á algeru frumstigi svo erfitt er að segja til um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert