Enginn greindist með inflúensu hér á landi síðasta vetur og verður það að teljast afar óvenjulegt þar sem meðalfjöldi inflúensugreininga síðustu fimm tímabil var 476, að því er fram kemur í nýútkomnum Farsóttarfréttum sóttvarnalæknis.
Það þarf þó ekki að leita langt til að finna skýringu en hún liggur helst í ferðatakmörkunum og sóttvarnaráðstöfunum á landamærum vegna COVID-19, ásamt því að aldrei hafa jafn margir verið bólusettir gegn árlegri inflúensu hér á landi.
Árlegt inflúensutímabil hefst að hausti og lýkur að vori árið eftir. Toppnum í greiningu tilfella er yfirleitt náð í febrúar eða mars og fer tilfellum þá hratt fækkandi.
Kórónuveirufaraldurinn á Íslandi er fyrirferðarmikill í Farsóttarfréttum sem komu út í dag en þar er fjallað um bólusetningar við COVID-19, fjórðu bylgju COVID-19 á Íslandi sem braust út í mars, hópsýkingu í leikskóla í apríl, aðgerðir á landamærum, ný afbrigði SARS-CoV-2 veirunnar og skýrslu um COVID-19 hópsýkingu á Landakoti. Þá er einnig fjallað um kynsjúkdóma og salmonellu, auk inflúensu veturinn 2020-2021.