Aldrei hefur sjúkraflutningum fjölgað jafn mikið og á milli áranna 2020 og 2021 hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Fjölgunin nemur þeim flutningum sem ein áhöfn á sjúkrabíl gæti sinnt með því að vera að störfum alla virka daga allt árið. Sjúkraflutningamenn eru farnir að finna verulega fyrir þessu aukna álagi og stefnir flutningafjöldi á árinu í 35.000.
Í þessum samanburði þarf að hafa í huga að í fyrstu bylgju Covid drógust sjúkraflutningar talsvert saman. Það gerðist aftur á móti ekki í seinni bylgjum.
„Covid-flutningarnir eiga einhvern skerf af þessu en eru ekki aðall orsakavaldur fjölgunar flutninga þótt álag vegna covid hafið aukist vinnulega séð í síbreytilegum verkferlum. Október í fyrra var algjör metmánuður hjá okkur, fjöldinn hefur eiginlega ekkert farið niður almennilega síðan þá. Aukningin á milli 2020 og 2021 er gríðarlega mikil. Þetta er 3.550 flutninga aukning á hálfu ári,“ segir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Eitthvað hefur bæst í mannskapinn en starfsmannafjöldinn hefur ekki aukist jafn mikið og verkefnin sem hann þarf að takast á við.
„Þegar aukningin er svona mikil og hröð getur verið mjög erfitt að fá fjárveitingar og þar af leiðandi ráðningar fyrir svona mikla aukningu,“ segir Sigurjón.
Það sem af er ári hafa áhafnir sjúkrabíla farið í yfir 100 flutninga á sólarhring 105 sinnum. Í fyrsta sinn fóru flutningar á sólarhring yfir 130 talsins á þessu ári.
„Við erum komin í 16 daga á þessu ári þar sem við höfum farið yfir 130 flutninga. Við höfum farið í yfir 100 flutninga á vakt 60% daga á þessu ári. Í fyrra var hlutfallið 17%,“ segir Sigurjón.
Fjölgunin er þvert á tegund flutninga og er útlit fyrir að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fari í um 35.000 flutninga á þessu ári ef þróunin heldur svona áfram.
„Þetta er farið að taka rosalega mikið á liðið og þetta eru orðnir mjög þéttir dagar og mikið álag. Við erum alveg vanir slíku en þetta er erfiðara þegar þetta er orðið svona dag eftir dag. Þá fer þetta að síga í mannskapinn og maður hefur áhyggjur af því,“ segir Sigurjón. „Það eru ansi margir dagar sem er erfitt að gefa mönnum smá pásu eða koma þeim í kaffi.“
Spurður hvort meira sé um að fólk kalli til sjúkrabíla að ástæðulausu en áður var segir Sigurjón:
„Ég held að þröskuldurinn fyrir því að fólk hringi á bíl sé orðinn lægri en áður var, þjónustan er mjög líka mjög há og það getur líka haft áhrif. Við erum oft að fara í verkefni eða flutninga þar sem fólk ætti að geta komið sér sjálft á spítala eða heilsugæsla eða læknavakt ætti að geta sinnt. Í mörgum tilvikum er ekki þörf á sjúkrabíl.“
Sigurjón bendir á að erlendis sé einmitt sama vandamál uppi, fólk hringir óþarflega oft á sjúkrabíl. Víða hefur verið vakin athygli á því, t.a.m. með auglýsingum þar sem fólk er minnt á að hringja ekki á sjúkrabíl geti það hringt á leigubíl.
Sigurjón segir alveg ljóst að auka þurfi við starfsmannafjöldann.
„Okkur þarf að fjölga. Það hefur verið aðeins aukning í liðinu en ekki í sama hlutfalli og aukningin á vinnu. Stór hluti af okkar starfi er ekki bara að flytja fólk heldur erum við líka að sinna slökkviþættinum og svo er gríðarlega mikil þjálfunar- og endurmenntunarkrafa á okkur bæði í sjúkraflutninga- og slökkviþætti. Sem er svolítið erfitt að sinna líka,“ segir Sigurjón og bætir við að lokum: „Við sitjum ekki í sófanum á daginn.“