Reyna að bjarga því sem bjarga má

Vegurinn við Fnjóská í Fnjóskadal er vægast sagt illa farinn. …
Vegurinn við Fnjóská í Fnjóskadal er vægast sagt illa farinn. Raunar er hann bara alveg farinn, eins og sjá má. Ljósmynd/Aðsend

Vatnavöxtum á Norðurlandi hefur eitthvað slotað frá því sem mest var í nótt. Ekki hefur verið jafnmikið í ám á svæðinu í áratugi að því er fulltrúar Vegagerðarinnar á svæðinu segja. 

Enn er lokað við brú yfir Þverá í Eyjafirði sem fór í sundur og við Illugastaði nærri Fnjóská fór vegur sundur. 

Grétar Ásgeirsson frá Vegagerðinni er í Fnjóskadal og hann ræddi við mbl.is.

„Þar er vegurinn í sundur á ábyggilega allavega tveimur stöðum, innan við Illugastaði. Við erum að reyna að verja brú núna yfir Fnjóskána á móti Illugastöðum.“

Og er hætt við að hún haldi ekki?

„Ég vona að okkur takist að verja hana. Það eru grjótflutningabílar og grafa á leiðinni.“

Vinnutæki reyna að bjarga því sem bjarga má við Fnjóská …
Vinnutæki reyna að bjarga því sem bjarga má við Fnjóská mót Illugastöðum. Ljósmynd/Aðsend

Ekki sést síðan '95

Lögregla og aðrir viðbragðsaðilar á svæðinu funda nú um stöðu mála eftir nóttina og framhaldið í dag. Eins og fyrr segir er mestu vatnavöxtunum e.t.v. að slota á einhverjum stöðum en það breytir því ekki að vatnsmagn í ám á svæðinu er með því mesta sem sést hefur í áratugi. 

„Í fyrrinótt fór Fnjóskáin í 470 rúmmetra á sekúndu,“ segir Grétar. 

„Og síðustu nótt fór hún í 578,“ bætir hann við og segir að ekki hafi viðlíka vatnsmagn sést í ánni síðan árið 1995.

Illugastaðir í Fnjóskadal.
Illugastaðir í Fnjóskadal. Kort/Map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert