Ekkert rauðglóandi hraun – gosið mögulega búið

Gígurinn í dag.
Gígurinn í dag. Ljósmynd/Gísli Gíslason

Ekkert rauðglóandi hraun sést nú ofan í gígnum í Geldingadölum. Af því má ráða að öll virkni sé nú hætt, en ekki er hægt að fullyrða hvort ástandið sé varanlegt.

Mögulega geti verið að gosinu sé lokið. 

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, eldfjalla- og náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að verið sé að skoða hvort um möguleg goslok sé að ræða. Erfitt sé að segja til um hvenær verði ljóst hvort um goslok sé að ræða eða ekki. 

„Sko það er of snemmt að segja til um það. Það getur verið að það hafi orðið eitthvert svona þrýstingsfall og að það taki smá tíma að byrja að vella aftur upp úr honum. Það er spurning hvort það muni gerast eða þá að þessu sé hreinlega bara að ljúka.“

„Þetta eru alveg þó nokkrir tímar sem það getur verið engin virkni þannig að við verðum bara að fylgjast náið með þessu í dag og á morgun og sjá hvort eitthvað breytist.“

Hegðunin „passar við endalokin“

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, segir við mbl.is að mögulega sé komið að endalokum gossins. Allavega sé minna af kviku en áður.

„Þessi hegðun núna síðustu daga hún passar alveg við það að við erum að sjá endalokin, eða byrjunina á endalokunum. Það er að minnka framboðið á kviku.

Það eru tveir hlutir sem koma til greina annaðhvort er kvikan að leita sér leið einhversstaðar annarstaðar á svæðinu eða það að framboð af kviku sé að minnka. Að magnið í upptökunum ekki jafn greiður aðgangur af því og það sé farið að minnka vegna þess að það er alveg kyrrð,“ segir Magnús Tumi og bætir við:

„Þetta ber öll einkenni þess að það sé að farið að draga mikið úr gosinu, en það er engu hægt að slá föstu ennþá og þetta kemur allt í ljós. En þetta líkist því að nú sé þrýstingur að minnka neðanjarðar og framboð á kviku er að verða búið.

Ef það er raunin erum við að horfa upp á endalokin, eða byrjunina á endalokunum. Það er of snemmt að segja til um þetta við verðum bara að sjá hvað gerist.“

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands. Ljósmynd/Almannavarnir

Eins og gígurinn sé „10 ára gamall“

Gísli Gíslason, þyrluflugmaður Heli Austria Iceland, sendi mbl.is myndir af gráum gígnum og sagði að ekki sæist í örðu af rauðglóandi hrauni. Gígurinn virtist vera eins og „10 ára gamall“.

Talið er að áður hafi slokknað í gígnum en ekki hafa náðst jafngóðar myndir af gígnum með engu rauðglóandi hrauni fyrr en nú. 

Ljósmynd/Gísli Gíslason

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka