Utanvegahlaupið Reykjanes Volcano Ultra (Goshlaupið) fer fram um helgina. Þær vegalengdir sem eru í boði í hlaupinu eru 10, 30, 50 og 100 km. Keppendur í 100 km flokknum verða ræstir út á miðnætti 3. júlí og munu þeir því hlaupa í miðnætursólinni.
Hinir flokkarnir verða ræstir af stað með klukkutíma millibili frá kl. 9-11, 4. júlí. Hlaupin byrja öll og enda fyrir utan veitingastaðinn Salthúsið í Grindavík. UMFG stendur fyrir hlaupinu en Ívar Trausti Jósafatsson hefur verið félaginu innan handar við skipulagningu á keppninni.
Hann segir það ekki oft sem fólk getur keppt í utanvegahlaupi þar sem hægt er að sjá virkt eldgos í leiðinni en allir flokkarnir nema einn munu annaðhvort hlaupa að eldgosinu í Geldingadal eða framhjá því. Opið er fyrir skráningu í hlaupið á hlaup.is til kl. 22 í kvöld. Með kóðanum Salt25 fæst 25% afsláttur af skráningargjaldinu í hlaupið en afslátturinn er í boði veitingastaðarins Salthússins í Grindavík og Morgunblaðsins.