Vinna við hleðslu nýs grjótvarnargarðs framan við Norðurbakka í Hafnarfirði hefur staðið yfir síðan í vetur en áætlað er að framkvæmdunum ljúki á næstu 10-15 dögum, segir Lúðvík Geirsson hafnarstjóri við Morgunblaðið.
Verið er að hlaða grjótvarnirnar utan um gamalt stálþil sem sé orðið mjög slitið, að sögn Lúðvíks. „Það voru skoðaðir kostir í því að annað hvort reka niður nýtt þil eða klæða gamla þilið með grjóti eins og við erum að gera núna,“ segir hann.
Grjótvarnirnar voru metnar mun álitlegri kostur þar sem mjög langt er niður á fast á þessu svæði og því væri erfitt að koma fyrir nýju stálþili, að sögn Lúðvíks. „Það hefði líka kostað á annað hundrað milljónir að skipta gamla þilinu út. Svo er grjótfyllingin í meira samræmi við annan frágang þarna í fjarðarbotninum,“ segir hann. „Þetta er verkefni sem búið er að vera lengi í pípunum og var kynnt vel fyrir íbúum í upphafi.“
Þá verður einnig farið í framkvæmdir á Norðurgarðinum sjálfum, segir Lúðvík í Morgunblaðinu í dag