Hraun sést nú flæða á nýjan leik í Geldingadölum. Fyrr í dag var eins og slokknað væri í aðalgíg gosstöðvanna og töldu jarðfræðingar að merkja mætti upphaf endaloka gossins.
Stuttu eftir að Gísli Gíslason frá Heli Austria Iceland flaug yfir gosstöðvarnar flaug annar þyrluflugmaður, Jóhannesson Jóhannesson hjá Helo, yfir þær. Gísli sendi mbl.is mynd af gráum og, að því er virtist, kulnuðum gíg, en Jóhannes sendi svo myndir af gíg þar sem hraun var tekið að renna á nýjan leik.
Það er því ljóst að eldgosinu í Geldingadölum er ekki enn lokið, þó að jarðvísindamenn virðist vissir í sinni sök um að mögulega sé endirinn að nálgast. Hegðun gossins hefur verið ansi breytileg undanfarna daga og ætti því varla að koma á óvart ef skíðloga mun í gígnum í kvöld – hver veit?
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, sagði við mbl.is fyrr í dag að mögulega væri komið að endalokum gossins. Allavega væri minna af kviku en áður.
„Þessi hegðun núna síðustu daga passar alveg við það að við erum að sjá endalokin, eða byrjunina á endalokunum. Það er að minnka framboðið á kviku.
Það er tvennt sem kemur til greina; annaðhvort er kvikan að leita sér að leið einhvers staðar annars staðar á svæðinu eða framboð af kviku er að minnka. Að magnið í upptökunum sé farið að minnka vegna þess að það er alveg kyrrð,“ segir Magnús Tumi og bætir við:
„Þetta ber öll einkenni þess að það sé að farið að draga mikið úr gosinu, en það er engu hægt að slá föstu ennþá og þetta kemur allt í ljós. En þetta líkist því að nú sé þrýstingur að minnka neðanjarðar og framboð á kviku að verða búið.
Ef það er raunin erum við að horfa upp á endalokin, eða byrjunina á endalokunum. Það er of snemmt að segja til um þetta, við verðum bara að sjá hvað gerist.“