Eldgosið í Geldingadölum er farið að slá öfgakenndari takt og sú breytta hegðun gæti verið varanleg. Gosvirknin hefur minnkað aftur eftir að hafa rokið upp að nýju í kjölfar þess að hafa minnkað.
Lovísa Mjöll Guðmundsdóttur, eldfjalla- og náttúvarársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir við mbl.is að vissulega séu þetta stærri sveiflur en áður sáust í þessu gosi en mögulega sé það bara nýja „normið“.
Virknin er þó enn töluverð og mátti greina myndun nýs gosops í gærkvöldi en Lovísa segir að enn sé verið að staðfesta að um eiginlegt gosop sé að ræða.
„Við getum ekki alveg staðfest hvort þetta sé nýtt gosop eða bara svona eitthvert „splass“ í gangi þarna. Við höfum verið að fylgjast grannt með þessu en við vitum ekki alveg, það er erfitt að segja hvort þetta sé nýtt gosop eða ekki.“
Undanfarna daga og vikur hefur fátt annað verið að frétta af gosinu í Geldingadölum en að virknin fari upp og aukist og svo minnki hún aftur skömmu síðar. Þessar öfgakenndu sveiflur geta verið varanlegar.
„Það virðist vera að það sé komin þessi lotubundna virkni og að óróinn sé að fara bara upp og niður, virknin þá í kjölfarið að hægja á sér og koma aftur.“
Er þetta ekki svolítið öfgakenndara en við höfum áður séð í þessu gosi?
„Jú, þetta hefur verið svona meira en áður, það er spurning hvað er á seyði núna. Við fylgjumst auðvitað bara spennt með og sjáum hvort að þetta sé svona nýja „normið“ í þessu gosi.“
Lovísa segir að þessi öfgakenndari virkni sé ekki endilega vísir að upphafi endaloka þessa goss. Tölur frá Háskóla Íslands sýna að virkni sé enn mikil og því sé líklegt að gosið sé enn í fullu fjöri.
„Þannig að við bíðum bara spennt eftir nýjum tölum. En þegar óróinn féll þarna 28. júní síðastliðinn fengum við staðfest frá flugmanni Landhelgisgæslunnar að þar hefði hluti af gígbarminum fallið ofan í. Þá myndaðist í raun eins konar stífla og það er spurning hvort það sé eitthvað þannig í gangi, við vitum það ekki alveg.“
Ekki er víst að farið verði í eftirlitsflug yfir gosið í dag, að sögn sérfræðings veðurstofunnar. Fundað verður nú klukkan 9 og ákvörðun tekin um verkefni dagsins.