Stærsta efnahagsmálið að fjárfesta í fólki

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur unnið að breytingum og úrbótum á málefnum fanga og barna á kjörtímabilinu. Þar hefur hann fyrst og fremst verið að horfa til hvernig megi tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður verði gripin af kerfinu. Þegar kemur að föngum vill hann tryggja að í boði séu úrræði sem auðveldi þeim að stíga á nýjan leik út í lífið, að lokinni afplánun.

Hann bendir á að ef gleraugu hagfræðinnar eru sett á þessa málaflokka blasi við eitthvert arðsamasta verkefni sem hægt er að ráðast í. Hann talar í dag meira um að fjárfesta í fólki frekar en brúarsmíði, álverum eða vegagerð. 

Ásmundur Einar átti sjálfur rótlausa og erfiða æsku og hann upplýsir að sú reynsla sé að nýtast honum í þessum málaflokkum.

Hann vonast til að geta haldið áfram sem barnamálaráðherra eftir kosningar en það er mikil brekka. Í fyrsta lagi er hann í kjördæmi þar sem Framsóknarflokkurinn hefur ekki átt þingmann í átta ár. Svo er hitt hvort flokkurinn eigi aðild að næstu ríkisstjórn. Hann telur að þær kerfisbreytingar sem hann vill gera á málefnum barna séu á góðri leið. Einn þriðji sé kominn til framkvæmda og tveir þriðju eftir.

Hann ræðir líka um steininn í maganum sem stundum er lítill en verður svo jafnvel of stór, þannig að hann eigi erfitt með að mæta í vinnuna. 

Ásmundur Einar er gestur í Dagmálaþætti dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert