Andlát: Hólmsteinn T. Hólmsteinsson

Hólmsteinn T. Hólmsteinsson
Hólmsteinn T. Hólmsteinsson

Hólmsteinn T. Hólmsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins Möl og sandur á Akureyri, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 1. júlí síðastliðinn, sjötugur að aldri.

Hólmsteinn var fæddur á Akureyri 21. júní 1951, sonur hjónanna Hólmsteins Egilssonar (1915-1995), stofnanda Malar og sands, og Margrétar Sveinbjörnsdóttur (1919-2005) húsfreyju. Hólmsteinn átti þrjár systur, Erlu, Hugrúnu og Margréti.

Hólmsteinn gekk í skóla á Akureyri og varð stúdent frá MA árið 1971. Þaðan lá leiðin í Tækniskóla Íslands og lauk hann prófi í byggingatæknifræði. Námsárin starfaði hann í fyrirtæki föður síns og eftir nám tók hann við sem framkvæmdastjóri þess. Eftir sölu fyrirtækisins til nýrra eigenda starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá BM Vallá í Reykjavík til nokkurra ára eða fram til 2013, en fjölskyldan flutti á höfuðborgarsvæðið frá Akureyri árið 2006.

Hólmsteinn var virkur um tíma í bæjarpólitík á Akureyri fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og átti sæti í ýmsum ráðum á vegum bæjarins. Hann sat jafnframt í stjórnum ýmissa fyrirtækja á Akureyri, svo sem Krossaness, Slippstöðvarinnar og Stapa lífeyrissjóðs. Hann var einn af stofnendum endurvinnslu- og athafnafélagsins Úrbótamanna á Akureyri. Hann var mikill náttúrunnandi og laxveiðimaður. Hann sat í stjórn Laxárfélagsins ásamt því að vera gjaldkeri félagsins frá 1986.

Hann var virkur iðkandi og þjálfari í Sundfélaginu Óðni á Akureyri og keppnismaður í sundi. Keppti síðar undir merki félagsins í blaki. Eftirlifandi eiginkona Hólmsteins er Rut Ófeigsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri hjá sýslumanninum á Akureyri. Synir þeirra eru Ófeigur Tómas og tvíburarnir Egill Orri og Einar Már.

Útför hans fer fram frá Bústaðakirkju föstudaginn 9. júlí kl. 10 árdegis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert