Á þriðjudag var föngunarbúrum komið fyrir á Hvanneyri en átak hefur nú staðið yfir í Borgarbyggð sem miðar að því að handsama villiketti á svæðinu.
Á Hvanneyri er fuglafriðland og mega kettir eingöngu ganga þar lausir að því skilyrði uppfylltu að þeir séu örmerktir og skráðir í miðlægan gagnagrunn.
Íbúar hafa fengið tilmæli um að halda köttum sínum inni yfir það tímabil sem fuglsungarnir eru að gerast fleygir en erfiðara er að hafa hemil á þeim köttum sem lifa villtir í náttúrunni.
Ámundi Sigurðsson, dýrafangari Borgarbyggðar, stendur nú í því að handsama villikettina í samráði við Villikattafélag Vesturlands en að hans sögn hafa borist margar kvartanir á svæðinu vegna katta í görðum sem sitja fyrir fuglsungum sem komnir eru á stjá. Ámundi segir villikettina fjölga sér hratt og geti þeir skapað mikil vandamál. Er nú skylt að fá leyfi hjá sveitarfélaginu vilji menn halda hunda eða ketti í þéttbýli í Borgarbyggð. hmr@mbl.is