Aldís Ósk Björnsdóttir, sem lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu fyrir um viku að rafhlaupahjólinu hennar var stolið, hefur nú fengið nýtt hjól í hendurnar eftir að áhrifavaldurinn Edda Falak hrinti af stað söfnun fyrir Aldísi.
Aldís notar ferðaþjónustu fatlaðra til þess að komast á milli staða. Hlaupahjólið veitir henni frelsi þar sem hún getur komist á milli staða á því án þess að vera upp á aðra komin. Því varð Aldís að sjálfsögðu mjög leið þegar hjólið hvarf.
„Þegar Aldís Ósk bað mig um að auglýsa eftir rafskútunni sem var stolið þá datt okkur aldrei í hug hvað margir myndu bjóðast til að hjálpa,“ skrifar Brynhildur Diego Kolbeinsdóttir, systir Aldísar, um málið í færslu sem hún gaf mbl.is leyfi til að birta.
Ekki var nóg með að Aldís fengi nýja rafskútu, hún fékk einnig hjálm, lás og aukahluti.
„Takk Edda Falak fyrir að koma af stað söfnun og takk allir sem tóku þátt, hringdu, sendu skilaboð eða deildu,“ skrifar Brynhildur.
Fallegur dagur í dag ❤️ Aldís fékk hjólið í dag og vildi skila kveðju á alla sem hjálpuðu ✨ ég er orðlaus yfir ykkur öllum ❤️❤️ Takk fyrir að gleðja Aldísi með mér og njótið dagsins ☀️ pic.twitter.com/9F8Y4zbiOO
— Edda Falak (@eddafalak) July 2, 2021