Fjórar F-15 orrustuþotur á leið til landsins

Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland er að hefjast með komu flugsveitar bandaríska flughersins. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar.

Rúmlega eitt hundrað hermenn bandaríska flughersins taka þátt í verkefninu, en ásamt þeim eru starfsmenn frá stjórnstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Uedem í Þýskalandi og starfsmenn á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Fjórar F-15 orrustuþotur munu koma til landsins eftir helgi og koma þær til með að hafa aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Einnig kemur fram í færslunni að gera megi ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og á Egilsstöðum á tímabilinu 7. til 14. júlí. Framkvæmd verkefnisins verði með sama fyrirkomulagi og síðustu ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland.

Hugað að sóttvörnum

Þá er einnig tekið fram að líkt og með annan liðsafla er dvelur hérlendis tímabundið sé i gildi viðbúnaður vegna sóttvarna og framkvæmdin sé unnin í samvinnu við embætti landlæknis og aðra er koma að sóttvörnum hér á landi.

Landhelgisgæslan, í umboði utanríkisráðuneytisins, annast framkvæmd verkefnisins í samvinnu við Isavia. Gert er ráð fyrir því að loftrýmisgæslunni ljúki í lok júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert