Öfgar, hópur femínista á samfélagsmiðlinum TikTok, hafa í dag birt alls fimm myndskeið þar sem þjóðþekktur tónlistarmaður er sakaður um ítrekað kynferðislegt ofbeldi í garð kvenna og ungra stúlkna.
Hópurinn hefur á samfélagsmiðlum forðast að nafngreina tónlistarmanninn, en um er að ræða Ingólf Þórarinsson, eða Ingó veðurguð.
Hann segist í samtali við Vísi hafna þeim ásökunum sem á borð eru bornar í myndskeiðunum. Hann segist sömuleiðis ringlaður.
„Ég veit hver ég er og hvað ég hef gert og ég held að það sem er satt eigi eftir að koma í ljós,“ hefur Vísir eftir Ingólfi.
Um er að ræða lýsingar á nauðgunum og kynferðislegri áreitni en tugir frásagna hafa borist hópnum. Spanna sögurnar margra ára tímabil en í myndskeiðunum segir að þær komi ýmist frá stúlkunum sjálfum eða vinkonum sem urðu vitni að atburðarásinni.
Áberandi þykir í frásögnunum hve ungar stúlkurnar voru þegar áreitnin og ofbeldið á að hafa átt sér stað. Sögunum fylgir að þær hafi margar hverjar verið undir lögaldri, og sumar á grunnskólaaldri.
Ingólfur er einnig sagður hafa áreitt stúlkur þar sem hann hafði verið fenginn til að koma fram, meðal annars á grunnskólaskemmtun.
Að sögn forsvarsmanns Öfga hafa fleiri sögur borist eftir að myndskeiðin litu dagsins ljós. Stór hluti þeirra muni þó ekki rata á samfélagsmiðla að beiðni þolenda.
Greint var frá því í gær að Ingólfur myndi stýra brekkusöng á Þjóðhátíð í Eyjum. Öfgar og samtökin AGN (Aktívismi gegn nauðgunarmenningu) sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í kjölfarið þar sem óskað var svara frá þjóðhátíðarnefnd vegna valsins.
„Af hverju að taka áhættuna eftir ítrekaðar ábendingar um meinta misjafna hegðun? Hvernig væri að leyfa þolendum að njóta vafans?“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni.
Í tísti hér fyrir neðan má sjá myndskeiðin þar sem hluti frásagnanna kemur fram.