„Við lendum þyrlunni okkar við eldgosið þegar aðstæður leyfa,“ sagði Þorlákur Runólfsson, framkvæmdastjóri Þyrluþjónustunnar-Helo.is. Félagið á eina þyrlu en er í samstarfi við Reykjavík Helicopters og leigir þyrlur af þeim þegar þörf krefur. Unnið er að sameiningu félaganna, að sögn Þorláks.
„Við höfum verið í sambandi og góðu samstarfi við landeigendurna á Hrauni frá því stuttu eftir að eldgosið hófst,“ sagði Þorlákur.
Hann sagði að Þyrluþjónustan hefði samið við landeigendur Hrauns um heimild til að lenda við gosstöðvarnar. Þorlákur sagði að samningurinn sé trúnaðarmál og því geti hann ekki upplýst um efni hans né hvað lendingarleyfi kostar.
Eins og fram hefur komið settu landeigendurnir lögbann á lendingar Norðurflugs við gosstöðvarnar. Þorlákur segir í Morgunblaðinu í dag að Þyrluþjónustan hefði ekki fengið formlega hótun um slíkt lendingarbann.