Hugsað er fyrir tækni nýrra tíma við breikkun hringvegarins í Ölfusi. Lagnir og tækjabrunnar ætlaðir fyrir búnað sem styður við akstur sjálfkeyrandi bíla eru í veginum, sem er hannaður eftir öllum nýjustu stöðlum og viðmiðum.
Alls er umræddur vegur 7,2 km langur og gerð hans er stórverkefni sem alls fimmtíu manns vinna nú við.
„Við í Vegagerðinni vitum ekki frekar en aðrir hvenær sjálfkeyrandi bílar, sem eru ein birtingarmynd fjórðu iðnbyltinarinnar, komast í gagnið. En möguleikinn til að geta svarað nýjum áskorunum þarf að vera til staðar,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, í umfjöllun um þessar framkvæmdir í Morgunblaðinu í dag.