„Vonandi halda æxlin áfram að bráðna og lyfin að virka. Það truflar mig þó aðeins að læknarnir tala um að nota lyfin þangað til þau hætta að virka. Og hvað þá? Annars er engin leið að spá fyrir um hvernig þetta kemur til með að þróast og það eina sem læknarnir fást ekki til að svara er hvað ég eigi langt eftir. Og ef þeir gætu svarað því, myndi ég þá vilja vita það? Ég held ekki. Þú gætir dáið í bílslysi á leið inn á Akureyri á eftir. Myndirðu vilja vita það núna? Ég er fæddur í ágúst 1973 og held ég verði örugglega fimmtugur. Neyðist meira að segja ábyggilega til að halda veislu. En ég veit ekki hvort ég næ að verða sextugur.“
Þetta segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari á Laugum, íþróttalýsandi og bóndi með meiru, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins, en hann greindist í byrjun árs með fjórða stigs sortuæxli. Hann hefur svarað meðferð vel og æxlin minnkað um 35%.
Ekki er á Sigurbirni að sjá að hann sé veikur.
„Mér finnst ég heldur ekki vera veikur. Þessi veikindi komu alveg flatt upp á mig; ég hef verið mjög heilsuhraustur og kenndi mér einskis meins fyrr en eitthvað poppaði út úr kviðnum á mér yfir nótt fljótlega eftir áramótin. Ég var sannfærður um að þetta væri kviðslit en gaf mér ekki tíma til að láta líta á það fyrr en nokkrum vikum seinna, það var nóg að gera hérna í skólanum. Auðvitað hefði ég átt að fara fyrr, eins og fólk lagði að mér. Maður á aldrei að bíða með svona lagað!“
Niðurstaðan var óvæntur skellur: Fjórða stigs sortuæxli. Nokkur stór æxli fundust í vinstra lunga, á báðum nýrnahettum, milli miltans og maga og við hægra nýra. Þá voru einnig minni æxli eða hnútar á víð og dreif í líkamanum og lítið æxli í hægra heilahveli. „Sortuæxli er algjör skítadreifari þegar það fer af stað, þannig að þetta fer á leifturhraða út um allt. Merkilegast þótti mér að vera með æxli í fituvef. Það er ekki mikla fitu á mér að finna.“
Hann glottir.
Sigurbjörn er á nýjum líftæknilyfjum sem öfugt við hefðbundin krabbameinslyf virkja ónæmiskerfið. Það þýðir að hann missir ekki hárið og hefur ekki verið að léttast.
Þrátt fyrir takmarkaðar aukaverkanir af lyfjunum er þolið þó minna en það var. „Ég þreytist fyrr en ég á að venjast, sérstaklega í girðingavinnu, skítamokstri eða annarri líkamlegri vinnu – sem er skellur, ég væri miklu frekar til í að þreytast fyrr hérna á skrifstofunni.“
Hann hefur getað stundað sína vinnu og vonast til að gera það áfram. „Horfði til verri vegar og ég fengi þau tíðindi að ég ætti bara eitt ár eftir þá myndi ég fara í veikindaleyfi. Ég nenni ekki að eyða síðasta árinu mínu í að ala upp annarra manna börn. En mig langar ekkert í leyfi, mér líður vel hérna á Laugum, mörgu hefur verið breytt til hins betra og skólinn gengur vel.“
Fyrstu viðbrögð Sigurbjörns voru að skora meinið á hólm með því að hreyfa sig meira, borða hollar, drekka minna áfengi og stunda hugleiðslu. „Vandamálið er hins vegar að ég upplifi þetta ekki eins og að ég sé að berjast við eitthvað. Læknarnir segja að ég sé mjög veikur með langt gengið krabbamein en fyrir mér er það óraunverulegt. Mér líður ekki þannig og ég lít ekki þannig út. Pabbi var með fjórða stigs krabbamein í blöðruhálsi og hann leit þannig út. Eins og helsjúkur maður. Ég horfði upp á þá glímu í návígi.“
Hann kveðst vera vongóður um bata en um leið raunsær. „Ég er með fjórða stigs krabbamein sem læknar meta ólæknandi. Vitað er um fólk sem hefur náð sér en í þeim tilvikum tala læknar um „engar vísbendingar um sjúkdóminn“ en ekki að fólk sé „læknað“. Líkurnar á því að lifa lengi eru ekki með mér, ég geri mér fulla grein fyrir því. Einn af hverjum sex eru lifandi eftir fimm ár. Það eru ekkert sérstakar líkur, svolítið eins og að vera á fyrstu braut í úrslitum í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum. Þú horfir á Usain Bolt á fimmtu brautinni og veist að 80% líkur eru á því að hann vinni. En góðu fréttirnar eru þær að þú átt líka möguleika – vegna þess að þú ert á ráslínunni og Bolt gæti alltaf þjófstartað eða tognað. Sjálfum líður mér heldur ekki eins og ég sé á fyrstu brautinni. Án þess að líkja mér við Usain Bolt upplifi ég mína möguleika meiri en Jóa á bolnum sem greinist með svona krabbamein vegna þess að ég hef farið vel með mig gegnum tíðina og bý að drjúgu keppnisskapi.“
Andlega hliðin skiptir ekki minna máli og afstaðan, það er hvernig menn nálgast þessa rimmu upp á líf og dauða. „Ég viðurkenni alveg að mér leið hreint ekki vel með þetta fyrstu dagana eftir greininguna. Ég var dapur. Bað mína nánustu um að gefa mér smá svigrúm. Ég fékk greininguna á föstudegi og á þriðjudeginum eftir leið mér strax betur. Fannst ég vera tilbúinn að berjast – og það ætla ég mér að gera meðan enn er von. Þarna var fólk líka farið að senda mér góðar kveðjur og biðja fyrir mér. Ég er þakklátur fyrir það; maður þiggur alla mögulega hjálp í svona baráttu.“
Hann vitnar í samtal sem hann átti nýverið við þrettán ára gamlan dreng sem sótti hann heim ásamt foreldrum sínum. „„Jæja, hvað ætlar þú að verða?“ spurði ég unga manninn. Og ekki stóð á svari: „Eldri!“ Það er stórkostlegt svar og akkúrat markmiðið hjá mér sjálfum. Ég ætla að verða eldri!“
Ítarlega er rætt við Sigurbjörn í Sunnudagsblaðinu en hann er á leið á Ólympíuleikana í Tókíó síðar í mánuðinum, þar sem hann mun lýsa keppni í frjálsum íþróttum af sinni alkunnu innlifun.