Sjómannadagsráð hefur sagt upp samstarfssamningi við Garðabæ um rekstur hjúkrunarheimilisins Ísafoldar. Uppsögnin tekur gildi 1. janúar 2022.
Hrafnista mun segja upp samningi sínm við Sjúkratryggingar Íslands vegna heimilisins. Garðabær hefur óskað eftir viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um yfirtöku ríkisins á rekstri Ísafoldar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgublaðinu í dag.
Í uppsagnarbréfinu, sem er dagsett 14. júní 2021, kemur fram að allt frá stofnun hafi hjúkrunarheimilið staðið frammi fyrir töluverðum rekstrarerfiðleikum. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 1. september 2020 og á fundi bæjarstjórnar 3. september sama ár hafi verið bókað að „komi ekki til viðbótarfjármagn frá ríkinu til reksturs Ísafoldar og sjómannadagsráð segir sig frá samningi við Garðabæ samþykkir bæjarstjórn Garðabæjar að fela bæjarstjóra að undirbúa að afhenda ríkinu reksturinn“.