Allir sendendur hafi verið staðfestir

mbl.is

Aðgerðasinnahópurinn Öfgar sendi frá sér yfirlýsingu í nótt vegna fréttar DV þar sem fjallað var um lygasögu sem kona sagðist hafa sent Öfgum um Ingó veðurguð. Öfgar segja aftur á móti að hópurinn hafi talað við allar konurnar sem sent hafi honum frásagnir af meintu kynferðisofbeldi þekkts tónlistarmanns og að það standist ekki að umrædd kona hafi sent þeim sögu. 

Öfgar birtu fjölda nafnlausra frásagna af meintu kynferðisofbeldi þjóðþekkts tónlistarmanns í gær. Fjölmiðlar tengdu þær sögur við Ingólf Þórarinsson, sem betur er þekktur sem Ingó veðurguð, og leituðu eftir viðbrögðum hans. Hann hafnar ásökunum um kynferðisofbeldi og kynferðislega áreitni. Í yfirlýsingu Öfga segir að þær hafi aldrei nafngreint umræddan tónlistarmann. 

„Við í Öfgum höfum tekið við fjölda frásagna frá konum síðustu tvö ár. Hver einsta frásögn hefur verið staðfest með því að bera saman sendanda við Íslendingabók, engin frásögn sem birt hefur verið hefur komið frá sendanda sem ekki er hægt að staðfesta,“ segir í yfirlýsingu Öfga.

Meintur gerandi hafi ekki verið nefndur

130 konur skrifuðu undir aðra yfirlýsingu Öfga í vikunni þar sem þær óskuðu eftir svörum frá þjóðhátíðarnefnd um það hvernig réttlæta megi það að nefndin hafi valið Ingó til þess að stýra brekkusöng á Þjóðhátíð í ár.

Í yfirlýsingunni, sem hópurinn sendi frá sér á Twitter í nótt, segir að frásagnirnar sem hópurinn birti á samfélagsmiðlinum TikTok í gær séu nafnlausar til þess að vernda þolendur.

„Auk þess hefur meintur gerandi ekki verið nefndur á nafn þó svo að um sama mann sé að ræða í öllum frásögnum. Öll kennileiti hafa verið fjarlægð úr frásögnunum svo ekki sé hægt að tengja þær við ákveðinn meintan geranda. Einnig höfum við rætt við þolendur og séð myndir af áverkum,“ segir í nýju yfirlýsingunni.

„Fréttaflutningur DV var til þess gerður að draga úr trúverðugleika þolenda. Blaðamaður DV býr til frétt út frá tvíti á Twitter þar sem einstaklingur segist hafa sent upplognar frásagnir undir nafnlausum aðgöngum. Það stenst ekki þar sem við höfum, eins og áður segir, staðfest alla sendendur.“

„Við munum aldrei rjúfa trúnað

Öfgar segja að þetta sé gert á kostnað Öfga og meintra þolenda. Þá segja þær að Twitter-aðganginum sem sagðist hafa sent upplognar frásagnir hafi verið eytt. 

Um það að nafn Ingó hafi verið tengt við sögurnar segja Öfgar:

„Það að Ingólfur eða fjölmiðlar hafi tengt hann við sögurnar er ekki okkar mál. Við höfum hvergi gefið upp um hvern ræðir og munum ekki staðfesta það hver meintur gerandi sé. Við tölum um einn mann og fjölda frásagna sem okkur hafa borist.“

Stór hlut meintra þolenda mannsins var undir lögaldri þegar meint brot eiga að hafa átt sér stað.

„Við munum aldrei rjúfa trúnað við þær sem hafa treyst okkur fyrir frásögnum sínum. Þolendur hafa rétt á að segja sínar sögur án þess að almenningur heimti nafngreiningu á meintum geranda, meintum þolanda og að hann sé ákærður og dreginn fyrir dóm.“

Ingó segist ringlaður og saklaus

Ingó sagðist í samtali við Vísi í gær hafna því sem hann hefur verið sakaður um. Þá segist hann ringlaður. 

Ég veit hver ég er og hvað ég hef gert og ég held að það sem er satt eigi eft­ir að koma í ljós,“ hef­ur Vís­ir eft­ir Ingólfi.

Um er að ræða lýs­ing­ar á nauðgun­um og kyn­ferðis­legri áreitni en tug­ir frá­sagna hafa borist Öfgum. Spanna sög­urn­ar margra ára tíma­bil.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka