„Við myndum aldrei snúa neinum við á tröppunum“

„Það getur verið að þetta verði metár,“ segir Hulda.
„Það getur verið að þetta verði metár,“ segir Hulda. mbl.is/Colourbox

Það stefnir í metár í fæðingum og vegna álags á fæðingardeild Landspítala hefur einhverjum konum verið boðið að fæða á öðrum sjúkrahúsum, til að mynda á Akranesi. Yfirlæknir segir að þetta sé allt gert í samráði við konurnar og þær þurfi ekki að óttast að þeim verði úthýst. Ákvörðun um að fæða annars staðar er einungis tekin ef litið er svo á að sá fæðingarstaður sé jafn öruggur og góður fyrir viðkomandi konu. 

„Við reynum auðvitað að sinna öllum eftir allra bestu getu. Það er alltaf þannig í fæðingaþjónustu að það koma álagspunktar. Við getum ekkert alltaf stýrt því hversu mörg börn ákveða að koma í heiminn á hverjum tíma,“ segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingaþjónustu hjá Landspítala, í samtali við mbl.is. 

Vísir greindi fyrst frá málinu. 

Upplagt að dreifa álaginu svo konur fái sem besta þjónustu

Hulda segir að ef það sé möguleiki að jafna álagið með því að dreifa því á fleiri fæðingarstaði þá komi fyrir að stungið sé upp á því. Það er þó almennt einungis gert í tilvikum kvenna sem vitað er hvenær muni fæða, t.a.m. í tilvikum þeirra kvenna sem setja þarf af stað.

„Það er þá eitthvað sem er gert í góðu samráði við konurnar. Það er ekki þannig að þær þurfi að óttast að þeim sé úthýst. Sérstaklega ef þetta eru konur sem þarf að setja af stað eða slíkt, þá kemur það stundum fyrir að við við ræðum við þær að þær geti hugsað sér að skoða annan möguleika sem við álítum þá að jafn öruggur og góður fyrir þær. Þá erum við með þeirra hagsmuni í huga, að þær fái sem bestu þjónustuna og eftirlitið,“ segir Hulda.

„Við myndum aldrei snúa neinum við á tröppunum.“

Hulda segir að hagsmunir kvennanna séu alltaf hafðir í huga …
Hulda segir að hagsmunir kvennanna séu alltaf hafðir í huga þegar ákvarðanir um annan fæðingarstað eru teknar. Ljósmynd/Almannavarnir

Hugsunin er að þegar álagspunktar eru á fæðingardeild Landspítala en minna álag á öðrum fæðingarstöðum geti konurnar fengið betri þjónustu þar sem álagið er minna.

„Þá erum við oft búin að vera í samráði við t.d. Akranes og vitum þá að þar er rólegt. Þá er alveg upplagt að dreifa álaginu þannig að konurnar fái sem besta þjónustu,“ segir Hulda.

„Það getur verið að þetta verði metár

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stungið er upp á því við konur að þær fæði á öðrum fæðingarstöðum en á Landspítala og segist Hulda telja að góð reynsla sé af fyrirkomulaginu. 

„Til dæmis vitum við að Akranes er að mörgu leyti mjög sambærilegur staður með flesta þá þjónustu sem við getum boðið þótt það sé ekki allt alveg eins. Þar er til dæmis ekki nýburadeild, enda myndum við aldrei senda konur þangað sem við héldum að hefðu einhverja þörf fyrir slíka þjónustu.“

Um það hvort árið 2021 verði metár í fæðingum segir Hulda:

„Það getur verið að þetta verði metár. Við vitum það ekki fyrr en öll kurl eru komin til grafar en miðað við þann fjölda sem er búinn að fara í gegnum ómskoðanir hjá okkur þá gæti það farið svo.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert