Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur pólskri konu fyrir sifjaskaparbrot með því að hafa farið með börn sem hún á með íslenskum manni til Póllands og svipt hann þannig valdi og umsjón yfir börnunum í nærri tvö ár.
Málið var þingfest á föstudag í Héraðsdómi Reykjaness.
Maðurinn lagði fram kæru vegna málsins til lögreglu fyrir um tveimur árum. Í desember á síðasta ári fékkst úrskurður yfirdómstóls í Póllandi í málinu, þar sem kveðið var á um að konunni beri að fara með börnin til Íslands til að hitta föður þeirra, en pólsk yfirvöld hafa ekki framfylgt úrskurðinum að sögn Fróða Steingrímssonar, lögmanns mannsins.
Maðurinn er upprunalega frá Alsír en með íslenskt ríkisfang og segir Fróði að hvort tveggja dómsmála- og utanríkisráðuneytið hér á landi hafi haft aðkomu að málinu. Hann segir þó að sú aðkoma hafi verið takmörkuð og furðar Fróði sig að sama skapi á því að lögregla hafi haft málið á sínu borði í tvö ár áður en konan var boðuð í skýrslutöku.