Uppgröftur í Stöð á Stöðvarfirði ber merki um mikið ríkidæmi. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur telur líklegt að þangað hafi komið höfðingjar frá Noregi á ríkulegum skipum.
Stefnt er að því að hefja leit í haust að bátaskýli á nærliggjandi svæðum en fornleifafræðingarnir telja sig hafa þrengt niður það svæði sem kemur til greina í leitinni.
„Næst á dagskrá er að freista þess að finna naustið því skipið sem þessi höfðingi hefur gert út er dýrasta farartæki sem til var. Slíka fjárfestingu lætur fólk ekki standa úti við yfir veturinn,“ segir Bjarni.
Uppgröftur í Stöð hefur staðið yfir frá árinu 2015 en á minjasvæðinu er að finna stærstu og ríkulegustu skála sem rannsakaðir hafa verið á Íslandi, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.