Netöryggi á Íslandi hefur aukist síðan 2018 samkvæmt nýútgefnum netöryggisvísi Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) fyrir árið 2020. Þrátt fyrir það er Ísland eftirbátur hinna Norðurlandanna þegar kemur að netöryggi.
Í nýjustu úttekt ITU um stöðu netöryggis sem birt var í vikunni fær Ísland nú 79,81% mögulegra stiga miðað við 44,9% í síðustu úttekt frá 2018. Sú einkunn setur Ísland í 58. sæti á lista 167 þjóða en 31. sæti meðal Evrópuþjóða. Úttekt sambandsins byggist á eftirfarandi fimm flokkum: lagalegt umhverfi, tækni, skipulag, hæfni og samvinna. Í umsögn um Ísland segir að góður árangur hafi náðst hvað varðar lagalegt umhverfi og skipulag en þörf sé á úrbótum varðandi hæfni.
Nágrannaríki okkar á Norðurlöndum hafa nú öll náð yfir 90% mögulegra stiga í úttekt Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar. Meðal Evrópuþjóða eru Norðmenn í 11. sæti, Finnar koma næstir í 14. sæti, svo Svíar í 15. sæti og loks Danir í 19. sæti. Því er ljóst að Ísland á langt í land með að ná hinum norrænu ríkjunum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.