Gosmóða sem leggur frá eldgosinu í Geldingadölum inniheldur mengun sem getur orsakað einkenni lík flensu. Besta leiðin til að draga úr einkennum er að koma sér úr aðstæðum og inn í hús að sögn Helga Guðjónssonar, heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirlitinu.
Gosmóðan eða blámóða (e. volcanic smog) er loftmengun sem verður til þegar SO2 (brennisteinsdíoxíð), önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka með tilstuðlan sólarljóssins. Hún hefur einkennandi blágráan lit sem myndast er sólarljósið brotnar á ögnum/úða.
Samkvæmt Veðurstofu Íslands hefur gosmóðan sem legið hefur yfir landinu undanfarna daga blandast við þokuloft og þannig umbreyst svo hún greinist ekki með hefðbundnum mælingum á brennisteinsdíoxíði (SO2).
„Þetta er svokallaður endurkomu gosmökkur sem hefur borist frá eldgosinu og út á sjó hefur því fengið tíma til að hvarfast áður en hann kom aftur til baka yfir höfuðborgina,“ segir Helgi. „Þetta orsakar það að þeir sem eru viðkvæmir fyrir geta fengið einkenni lík flensu á borð við slen, höfuðverk, ertingu í augu og háls. Það er þó mjög einstaklingsbundið hversu viðkvæmt fólk er fyrir þessu.“
Til að draga úr einkennum gasmengunar er best að koma sér úr aðstæðum og að halda sig innandyra, segir Helgi. „Ef gildin fara upp og fólk finnur fyrir óþægindum er best að koma sér inn, loka öllum gluggum, slökkva á loftræstingu ef hún er til staðar og hækka hitann í húsinu til þess að mynda yfirþrýsting. Fólk finnur mest fyrir þessum einkennunum á meðan það er í þessum aðstæðum þar sem gildin eru há. Það ætti svo að draga fljótlega úr einkennum eftir að inn er komið.“
Í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirlitinu er börnum og þeim sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum ráðlagt að forðast útivist í lengri tíma og að takmarka áreynslu þegar gildi gosmóðunnar mælast há.
Inntur eftir því segir Helgi dæmi um að leikskólar hafi haldið börnum inni þá daga sem gosmóðan hefur verið í hámarki. „Það var gert að hluta til um daginn þegar það kom svona gosmóða yfir en þá voru nokkrir leikskólar sem tóku bara viðkvæmustu krakkana inn. Það voru þá yngstu krakkarnir og svo þau börn sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eins og til dæmis astma. Hin börnin fengu að fara út,“ segir hann.
Þá hvetur hann það fólk sem viðkvæmt er fyrir til að fylgjast með gasmengunarspám og stöðu loftgæða á þar til gerðum vefsíðum. Gosmengunarspá er að finna bæði á vef Veðurstofunnar og Belgings. Stöðu loftgæða er svo að finna á vef Umhverfisstofnunar.