Á miðvikudag er síðasti séns fyrir þá íbúa höfuðborgarsvæðisins sem hafa ekki fengið neitt bóluefni gegn Covid-19 að fá bólusetningu, vilji þeir fá sinn skammt fyrir sumarfrí. Þá verður opið hús í Laugardalshöll frá klukkan 10 til 13 og geta óbólusettir þá mætt og fengið fulla bólusetningu með bóluefni Janssen.
Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.
1.200 manns hafa skráð sig á lista til þess að fá Janssen á miðvikudag en Ragnheiður segir „nóg til“ af Janssen og því hvetur hún óbólusetta til þess að mæta og fá bólusetningu í Laugardalshöll. Einungis einn skammt þarf af Janssen svo fólk teljist fullbólusett gegn Covid-19. Það tekur þó um tvær vikur fyrir bóluefnið að ná góðri virkni og því eru bólusetningarvottorð ekki veitt fyrr en tveimur vikum eftir bólusetningu.
„Það verður opið hús hjá okkur frá 10 til 13 á miðvikudag. Þetta er síðasti séns til að ná sér í bólusetningu fyrir sumarfrí,“ segir Ragnheiður. „Við eigum alveg nóg af Janssen svo við hvetjum þau sem eru 18 ára og eldri og ekki barnshafandi til þess að koma.“
Á morgun fer fram endurbólusetning með bóluefni Pfizer. 7.000 skammtar eru í boði. Þeir sem fengu fyrsta skammt af Pfizer fá boð í bólusetninguna á morgun en þeir sem fengu fyrsta skammt af AstraZeneca og hafa ekki fengið annan skammt af efninu geta líka mætt. Þeir verða þó ekki boðaðir.
„Þeir sem eiga eftir að fá annan skammtinn af AstraZeneca geta annaðhvort komið á morgun í Pfizer, 13. júlí í Pfizer eða 14. júlí í AstraZeneca,“ segir Ragnheiður sem telur að nóg sé til af bóluefni Pfizer svo mögulegt verði að bólusetja báða hópa á morgun. Þeir sem fengu fyrsta skammt af bóluefni AstraZeneca og eiga enn eftir að fá annan skammt fá boð í bólusetningu 14. júlí.
En það er ekki einungis síðasti séns fyrir óbólusetta íbúa höfuðborgarsvæðisins að fá bólusetningu á miðvikudag, nú er einnig tímabil bólusetningarhallarinnar í Laugardalshöll að líða undir lok.
„Við verðum næstu tvær vikur í höllinni en svo lokum við,“ segir Ragnheiður.