Þungbúið veður er þennan morguninn og þoka en mun rofa til þegar líður á morguninn. Spáð er breytilegri átt, 3-8 metrum á sekúndu, og útlit er fyrir skýjað veður á suðurhluta landsins og vætu með köflum á Suðausturlandi. Fyrir norðan er heldur bjartara inn til landsins og líkur á stöku síðdegisskúrum, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Á morgun er útlit fyrir frekar hæga sunnanátt, en þó gæti hvesst á norðanverðu Snæfellsnesi eins og vill gerast í suðlægum áttum. Skýjað og úrkomulítið víða, en þurrt og jafnvel bjart norðaustan til.
Á miðvikudag gæti orðið nokkuð bjart víða um land, en þegar líður á daginn spáir hægt vaxandi suðvestlægri átt með vætu vestanlands um kvöldið og út vikuna er útlit fyrir einhverja vætu um landið sunnan- og vestanvert, en þurrt á Norðausturlandi.