Forvarnahópurinn Bleiki fíllinn segir yfirlýsingu þjóðhátíðarnefndar ÍBV veita von um að stórir hlutir geti „farið að gerast í stað endalausra hænuskrefa“.
Nefndin sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem greint var frá því að Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó veðurguð, myndi ekki stýra brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Eyjum og ekki koma fram á hátíðinni.
„Bleiki fíllinn snýst ekki um eina hátíð á ári né snýst hann um einn tónlistarmann. Við berjumst gegn þeirri ofbeldismenningu sem hefur verið við lýði alltof lengi og trúum að samfélagið allt vilji taka þátt í þeirri baráttu,“ segir í yfirlýsingu forvarnahópsins.
Forvarnahópurinn Bleiki fíllinn var stofnaður árið 2012 og hefur það að markmiði að fræða þjóðhátíðargesti um samþykkt kynlíf. Átakið hefur verið mjög sýnilegt á hátíðarsvæðinu frá stofnun og hafa til að mynda margar hljómsveitir og listamenn komið fram merkt átakinu í dalnum.
Greint var frá því fyrir helgi að Ingó myndi stýra brekkusöngnum. Í kjölfarið sendu Öfgar, hópur kvenna á samfélagsmiðlinum Tiktok, frá sér yfirlýsingu þar sem þær gagnrýndu ákvörðun þjóðhátíðarnefndar. Um helgina birti hópurinn fjölda frásagna kvenna þar sem þær saka þjóðþekktan tónlistarmann um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi.
Bleiki fíllinn sendi frá sér stutta tilkynningu eftir að þjóðhátíðarnefnd greindi frá því 2. júlí að Ingó myndi koma fram á hátíðinni. „Við trúum þolendum og stöndum með þeim. Við erum að funda og munum senda frá okkur yfirlýsingu bráðlega,“ segir í færslu á facebooksíðu hópsins 3. júlí. Ekkert heyrðist hins vegar frá hópnum fyrr en tilkynnt var í gær að Ingó kæmi ekki fram á þjóðhátíð.
Ingó hefur sagst ætla að leita réttar síns og er hann ósáttur við ákvörðun þjóðhátíðarnefndar.