Bó hlýtur fyrsta hjartastein Hafnafjarðar

Björgvin Halldórsson og Páll Eyjólfsson við afhjúpun steinsins í dag.
Björgvin Halldórsson og Páll Eyjólfsson við afhjúpun steinsins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjartasteinn til heiðurs tónlistarmanninum Björgvini Halldórssyni var afhjúpaður við Bæjarbíó í Hafnarfirði í dag. Um er að ræða heiðursverðlaun hátíðarinnar Hjarta Hafnarfjarðar sem hefst á morgun og fer nú fram í fimmta sinn. Hátíðin er haldin í Bæjarbíói.

Fyrir um tveimur árum lét Hafn­ar­fjarðarbær fjar­lægja stjörnu sem var sett í gang­stétt­ina fyr­ir fram­an Bæj­ar­bíó til heiðurs Björg­vini vegna kvörtunar frá Viðskiptaráði í Hollywood í Kaliforníu. Þótti ráðinu stjörnunni svipa mjög í út­liti til þeirra sem er að finna á Frægðargöt­unni í Hollywood (e. Hollywood Walk of Fame). Ráðið sagði þetta gert í heimildarleysi og því ætti bærinn að láta af öllu slíku þegar í stað. 

Hjartasteinninn í nærmynd.
Hjartasteinninn í nærmynd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eigin virðingarvottur

Hjartasteinninn er aftur á móti mjög ólíkur stjörnunum í Frægðargötunni í Hollywood.

„Það kviknaði sú hugmynd að búa til okkar eigin virðingarvott og þá var farið í logo Hafnafjarðar sem er hjarta, hjarta Hafnarfjarðar,“ segir Björgvin í samtali við blaðamann mbl.is. „Það eiga væntanlega margar svona hellur eftir að koma, þetta verða ekki bara tónlistarmenn heldur hafnfirskir listamenn, sem er náttúrlega alveg æðislegt, því það er nóg af þeim í Hafnarfirði.“

Björgvin ásamt Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar.
Björgvin ásamt Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vonandi getum við síðan heiðrað áfram hafnfirska listamenn með hjartasteininum árum saman,“ segir Páll Eyjólfsson, rekstraraðili Bæjarbíós.

Nánar verður fjallað um tónlistarhátíðina í samtali við Björgvin Halldórsson og Pál Eyjólfsson í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert