Til stendur að innheimta 500 króna gjald hjá þeim sem koma með sorp í svörtum ruslapokum í endurvinnslustöðvar Sorpu. Notast á við glæra poka í staðinn.
Guðmundur Tryggvi Ólafsson, rekstrarstjóri endurvinnslustöðva hjá Sorpu, segir í Morgunblaðinnu í dag að þetta sé hluti af stefnu Sorpu, að auka flokkun og endurvinnslu.
„Meira en helmingur af því sorpi, sem fólk kemur með óflokkað og fer þar af leiðandi í urðun, er efni sem er tækt í endurvinnslu,“ segir hann.
Guðmundur segir að með því að færa allt yfir í glæra poka auðveldi það starfsfólki að aðstoða fólk við að koma sorpinu á réttan stað. „Það er líka hagræðing í þessu. Það er sparnaður í því að flokka og koma hlutunum í rétta farvegi, og vilji menn það síður þá er eðlilegt að þeir kosti það til með þessu gjaldi.“