Gígja Gunnarsdóttir, verkefnastjóri heilsueflandi samfélags og hreyfingar hjá embætti landlæknis, segir margar spurningar um stóra samhengið og kynjahlutverkin hafa sprottið upp út frá niðurstöðum könnunar á mataræði og hreyfingu fullorðinna árið 2020.
Þar kom meðal annars fram að hlutfall þeirra sem notuðu virkan ferðamáta, gengu eða hjóluðu til vinnu eða skóla, lækkaði úr 21% 2019 í 13% árið 2020 meðal kvenna á aldrinum 18-34 ára.
Lítil breyting varð þó á virkum ferðamáta karla milli ára. „Við stöldruðum við þetta. Sérstaklega af því að við erum með tölur úr bylgjum Covid. Það er verið að safna þessum gögnum mánaðarlega og þar sáum við áberandi í fyrstu bylgjunni hvernig virkur ferðamáti hjá konum hrundi marktækt niður á meðan hann haggaðist varla hjá körlunum. Þá voru skólarnir lokaðir og hver tók heimavaktina?“ segir Gígja í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.