Túnin lifnuðu við eftir 17. júní

Heyskapur gengur glimrandi vel fyrir austan enda þurrt og sólríkt …
Heyskapur gengur glimrandi vel fyrir austan enda þurrt og sólríkt þar með eindæmum. Hér má sjá heyfeng með Dyrfjöllin í bakgrunni. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Heyskapur gengur eins og í sögu á Austurlandi að sögn Guðfinnu Hörpu Árnadóttur, bónda á Straumi í Hróarstungu og ráðunaut hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins:

„Þetta getur náttúrlega ekki gengið illa þegar það er rúmlega 20 gráðu hiti og sól dag eftir dag,“ segir Guðfinna.

Að hennar sögn hefur lítil sem engin úrkoma verið í landshlutanum síðustu vikur en upphaf sumarsins reyndist bændum erfitt: „Allt fram að miðbiki júnímánaðar var mjög vætusamt og kalt.“

Guðfinna segir sprettuna hafa tekið rækilega við sér síðan veðrið fór að leika við Austurlandið. „Maí var náttúrlega mjög lélegur og fyrri hluti júní sömuleiðis svo það var lítið að gera þangað til það hlýnaði,“ segir Guðfinna.

„Eftir 17. júní sást munur á túnum frá morgni til kvölds og kvöldi til morguns. Maður sá hlutina gerast fyrir augunum á sér.“ Þetta sé sérlega gleðilegt þar sem síðasta sumar hafi ekki reynst bændum hagfellt. „Hér var mikið kal í fyrra þannig að mönnum veitir ekki af að þetta gangi betur núna,“ segir Guðfinna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert